Vinna barna og unglinga

Í lögum er sérstaklega fjallað um vinnu barna og unglinga undir 18 ára aldri. Samkvæmt lögunum er barn einstaklingur yngri en 15 ára en unglingur á aldursbilinu 15-18 ára.

Bannað er að ráða börn til vinnu en þó er heimilt að að ráða 13 ára börn til léttra starfa svo sem garðyrkju- og þjónustustarfa. Þá mega börn sem eru 14 ára og eldri vinna ef vinnan er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi.

Í lögum er  sérstaklega fjallað um hvenær ekki má ráða unglinga til vinnu. Ef vinnan er ofvaxin líkamlegu eða andlegu atgervi þeirra eða getur valdið alvarlegu heilsutjóni má ekki ráða unglinga til vinnunnar. Eins ef hætta er á slysum eða vinnan er hættuleg heilsu þeirra.

Takmarkaður vinnutími

Í lögum er vinnutími barna takmarkaður og þá er hvíldartími barna og unglinga ennfremur lengri en fullorðinna á vinnumarkaði.

Óheimilt er að láta börn vinna á tímabilinu frá kl. 20 til kl. 6 og unglinga á tímabilinu frá kl. 22 til kl. 6. Heimilt er að víkja frá þessu við ákveðnar aðstæður hvað unglinga varðar.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei