Hafir þú sagt upp starfi eða þér verið sagt upp verður þú þó að vinna störf þín á uppsagnarfrestinum og atvinnurekandi að greiða þér laun. Með öðrum orðum þá sinnir þú störfum þínum á uppsagnarfresti með sambærilegum hætti og fyrir uppsögn og atvinnurekanda ber að greiða þér laun og önnur starfskjör eins og um var samið í upphafi og mælt er fyrir um í ráðningarsamningi og kjarasamningi.
Atvinnurekandi tekur stundum þá ákvörðun þegar hann segir starfsmanni upp störfum að starfsmaðurinn þurfi ekki að vinna út uppsagnarfrestinn. Atvinnurekanda er þetta heimilt en þá verður hann að greiða starfsmanninum laun út uppsagnarfrestinn og ótekið og áunnið orlof.
Mundu að fá staðfest skriflega vilji atvinnurekandi ekki að þú vinnir störf þín út uppsagnarfrestinn.