Ef þú vilt segja upp vinnunni eða atvinnurekandi vill segja þér upp þarf að gera það með formlegri uppsögn. Í kjarasamningum kemur fram hver uppsagnarfrestur er en meginreglan er sú að uppsagnarfrestur er þrír mánuðir. Skemmri og lengri uppsagnarfrestur tíðkast í kjarasamningum og því mikilvægt að kynna sér ákvæði þar um.
Ef þú ætlar að segja upp starfi þínu ber því að gera það með bréfi og miðast uppsagnarfrestur við næstu mánaðarmót. Þú þarft að vinna uppsagnarfrestinn og heldur öllum réttindum á uppsagnarfresti eins og hver annar starfsmaður, þ.e. heldur t.d. veikindarétti og ávinnur þér inn orlofsrétt.
Takmarkandi réttur til uppsagnar
Atvinnurekandi þarf sömuleiðis að segja upp starfsmanni með sambærilegum hætti en þó eru ýmsar takmarkanir á rétti atvinnurekanda til að segja starfsmanni upp, svo sem ákvæði um trúnaðarmenn, barnshafandi konur og foreldra í fæðingar- og foreldraorlofi.
Ef atvinnurekandi segir þér upp áttu rétt á viðtali um starfslok þín og ástæður uppsagnar en ósk um slíkt viðtal þarf að koma fram innan fjögurra sólarhringa frá uppsögn.
Sé ráðningarsamningur tímabundinn þarf ekki að segja honum upp heldur lýkur ráðningu á fyrirfram ákveðnum tímapunkti og starfsmaður lýkur störfum.