Hvað gerir stéttarfélagið fyrir mig?

Stéttarfélagið sinnir margvíslegri þjónustu fyrir félagsmenn sína. Þar getur þú fengið upplýsingar og aðstoð vegna launaútreiknings og kjaramála, sótt námsstyrki, leigt orlofshús, fengið greiðslur vegna langvarandi veikinda og stuðning við að koma til vinnu eftir slík veikinda auk aðstoðar lögmanna vegna ágreinings við atvinnurekendur.

Hér verður fjallað stuttlega um meginverkefni stéttarfélaganna en hikaðu ekki við að hafa samband við stéttarfélagið þitt ef þú ert í óvissu með réttindi þín eða átt í ágreiningi við atvinnurekanda um starfskjör þín.

Ráðgjöf
Stéttarfélagið sinnir margvíslegri þjónustu sem greiðsla félagsgjaldsins stendur undir. Þannig sinnir félagið upplýsingagjöf til félagsmanna, veitir ráðgjöf séu félagsmenn í ágreiningi við atvinnurekanda um starfskjör sín og þá er lögfræðiþjónusta í boði fyrir félagsmenn þurfa þeir á slíkri þjónustu að halda.

Veikindi og slys
Stéttarfélög starfrækja sjúkrasjóði en þangað geta starfsmenn leitað eftir styrkjum í sjúkra- og slysatilfellum þegar launagreiðslum frá atvinnurekanda lýkur. Sjúkrasjóðirnir greiða m.a. bætur í veikinda –og slysaforföllum í allt að 120 daga að loknum greiðslum vegna veikinda- og slysaréttar sem atvinnurekendur greiða, bætur vegna langveikra og alvarlega fatlaðra barna og vegna mjög alvarlegra veikinda maka.

Sumarhús
Orlofssjóðir reka orlofshús stéttarfélaganna og orlofssjóðir sumra stéttarfélaga styrkja félagsmenn sína við kaup á orlofsferðum innanlands og utan.  Félagsmenn geta sótt um að fá leigð sumarhús en nokkuð mismunandi er hvaða aðferðum stéttarfélögin beita við úthlutun húsanna.  Leiguverði er reynt að halda í lágmarki svo allir félagsmenn hafi kost á því að nýta sér þessa þjónustu fyrir sig og fjölskyldur sínar.

Nám og námskeið
Vilji starfsmenn auka menntun sína er hægt að sækja um náms- og námskeiðsstyrki úr fræðslusjóðum stéttarfélaganna.  Hafðu samband við stéttarfélagið þitt til að afla upplýsinga um þá námsstyrki sem þú átt rétt á. Þá kunna að vera í boði styrkir vegna tómstunda, s.s. líkamsræktarkorta og annað slíkt.

Starfsendurhæfing
Ef þú hefur lent í veikindum eða slysi og hefur ekki sömu starfsgetu og áður skaltu hafa samband við VIRK-starfsendurhæfingarsjóð eða ráðgjafa sjúkrasjóðs stéttarfélagsins þíns. Þar kemstu í samband við ráðgjafa sem mun aðstoða þig við að efla færni þína á ný og vinnugetu.
Þá veitir ráðgjafi VIRK þér margvíslegar upplýsingar um réttindi þín og hvaða þjónusta stendur þér til boða. Þjónustan er þér að kostnaðarlausu og er miðuð við þínar persónulegu þarfir.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei