Afhverju borga ég í stéttarfélag?

Í stuttu máli vegna þess að stéttarfélögin gera kjarasamninga sem ráða launum og starfskjörum þínum.

Laun og önnur starfskjör sem þú semur um við atvinnurekanda eru grundvölluð á kjarasamningum. Ráðningarsamningur þinn má ekki veita þér lakari rétt en segir í þeim kjarasamningi sem gildir um starf þitt. Kjarasamningurinn er því mjög mikilvægur þegar kemur að starfskjörum þínum og öðrum réttindum á vinnumarkaði.

Stéttarfélagið aðstoðar ef ágreiningur kemur upp

Það eru stéttarfélögin sem gera kjarasamninga við félag atvinnurekenda. Allir launþegar greiða gjald til stéttarfélagsins sem atvinnurekandi heldur eftir af launum. Gjaldið er í raun greiðsla til stéttarfélagsins fyrir að sinna m.a. kjarasamningsgerðinni auk annarrar þjónustu sem stéttarfélagið veitir, t.d. ráðgjöf vegna launaágreinings og aðgang að lögmönnum ef deilur koma upp á milli starfsmanns og atvinnurekanda. Starfsmenn eru í raun að greiða fyrir að fá að vinna eftir kjarasamningi félagsins sem kveður á um lágmarkskjör.

Atvinnurekandi greiðir í sjúkrasjóð, orlofssjóð, fræðslusjóð og starfsendurhæfingarsjóð en starfsmaður hefur rétt til að nýta sér þjónustu þessara sjóða með því að hafa samband við stéttarfélagið sitt.

Mundu að stéttarfélagið er þér til aðstoðar!

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei