Hafi þér verið sagt upp störfum er mikilvægt að hefja strax atvinnuleit en uppsagnarfrestur er hugsaður sem tími fyrir starfsmanninn til að leita sér að nýju starfi. Hafir þú unnið út uppsagnarfrestinn án þess að finna nýtt starf er nauðsynlegt að skrá þig atvinnulausan hjá Vinnumálastofnun til að öðlast rétt til atvinnuleysisbóta.
Fyrsta daginn sem starfsmaður er launalaus fær hann greiddar grunnatvinnuleysisbætur hafi hann skráð sig þann dag atvinnulausan. Grunnatvinnuleysisbætur eru greiddar fyrstu 10 virku dagana í atvinnuleit en eftir það eru tekjutengdar atvinnuleysisbætur greiddar í allt að þrjá mánuði en eftir það eru grunnatvinnuleysisbætur greiddar á ný.
Virk atvinnuleit til að fá atvinnuleysisbætur
Rétt er að hafa í huga að starfsmenn sem segja upp starfi sínu að eigin frumkvæði eiga ekki rétt til atvinnuleysisbóta fyrr en að liðnum ákveðnum biðtíma sem er 40 virkir dagar.
Til að fá greiddar atvinnuleysisbætur þarf atvinnuleitandi að vera í virkri vinnuleit og ef starf býðst en því er hafnað án gildra ástæðna getur það varðað missi bótaréttar í 40 daga.
Mundu að skrá þig hjá þjónustuskrifstofum Vinnumálastofnunar til að öðlast rétt til atvinnuleysisbóta!