Vernd gegn uppsögnum

Það er óheimilt að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hefur tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs eða er í fæðingar- eða foreldraorlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Sama gildir um uppsagnir þungaðrar konu og konu sem hefur nýlega alið barn.

Vegna þess er mikilvægt að starfsmaður tilkynni með skriflegum hætti atvinnurekanda um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs ella getur atvinnurekandi haldið því fram að honum hafi ekki verið kunnugt um orlofstökuna eða þungun konunnar þegar til uppsagnar kemur.

Stéttarfélagið aðstoðar

Ákvæðið kemur þó ekki í veg fyrir að starfsmanni sé sagt upp séu gildar ástæður fyrir hendi. Gildar ástæður geta t.d. tengst rekstrarstöðu fyrirtækisins en þó verður að skoða það í hverju tilviki fyrir sig. Mikilvægt er að leita til stéttarfélagsins telji starfsmaður að honum hafi verið sagt upp vegna töku fæðingarorlofs.

Brjóti atvinnurekandi þessar reglur kann starfsmanninum að verða greiddar bætur vegna þess tjóns sem hann verður fyrir.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei