Í kjarasamningum er kveðið á um það hvaða dagar teljist vera frídagar til viðbótar helgarfríum, hvaða greiðslur skuli koma fyrir þessa frídaga og hvernig skuli greiða ef starfsmaður þarf að vinna á slíkum frídögum.
Meginreglan er sú að starfsfólk á rétt á óskertum launum á frídögum, t.d. starfsmenn á mánaðarkaupi. Starfsmenn á tímakaupi fá greitt dagvinnukaup en réttur til t.d. yfirvinnugreiðslna er ekki til staðar.
Atvinnurekendur geta ekki skipað þér að vinna á frídögum nema sérstaklega hafi verið samið um það og sérstök greiðsla þarf þá að koma fyrir slíka vinnu.
Aukafrídagar
Þegar starfsmenn einhverra hluta vegna vinna aukafrídaga er aukalega greitt fyrir þá. Starfsmaður fær greitt það sem hann á að fá greitt fyrir frídaginn en til viðbótar greiðslu vegna vinnunnar á frídaginn, sem er þá yfirvinnu- eða stórhátíðarkaup.
Í kjarasamningum eru ítarleg ákvæði um greiðslur fyrir vinnu á aukafrídögum og eru þeir mishelgir og því misdýrir í þessu sambandi. Greint er á milli stórhátíðardaga, sem eru víðast nýársdagur, föstudagurinn langi, páskadagur, hvítasunnudagur, 17. júní, jóladagur og aðfangadagur og gamlársdagur eftir kl. 12.00, og annarra frídaga. Vinna á stórhátíðardögum greiðist samkvæmt kjarasamningum með tímakaupi sem nemur 1,375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Fyrir vinnu aðra frídaga greiðist yfirvinnukaup eins og það er skilgreint í viðkomandi kjarasamningi.
Um vaktavinnufólk gilda sérákvæði þar sem það vinnur aukafrídaga samkvæmt vaktskrá. Almennt greiðist hærra vaktaálag stórhátíðisdaga en aðra daga.
Mundu að þú átt rétt á frídögunum þínum og atvinnurekandi getur ekki krafist þess að þú vinnir á frídögum ef ekki var samið um það í upphafi. Ef þú vinnur þessa daga áttu að fá sérstaklega greitt fyrir það.