Skipta má réttindum vegna orlofs í tvennt; annars vegar réttur til frítöku en hins vegar réttur til greiðslu launa í orlofi.
Allir starfsmenn eiga rétt á sumarfrí eða orlofi eins og það er kallað í lögum og kjarasamningum. Lágmarksréttur er tryggður í orlofslögunum en starfsmenn kunna að eiga betri rétt í kjarasamningum og því mikilvægt að kynna sér ákvæði kjarasamnings um orlofsréttinn.
Að meginstefnu til miðast lengd orlofs starfsmanna á almenna vinnumarkaðnum við starfsaldur en orlof starfsmanna hjá hinu opinbera lengist í samræmi við lífaldur starfsmanns.
Orlofsgreiðslur eru ekki innfaldar í launum
Orlof skal taka á tímabilinu 2. maí til 15. september.
Auk réttar til að taka orlof eiga starfsmenn rétt á greiðslu launa í orlofinu. Orlofsgreiðslur reiknast af launum og er grunnprósentan 10,17% en getur verið hærri. Venjulega fá starfsmenn greitt orlof frá atvinnurekanda samtímis því og þeir taka sitt orlof.
Orlofsgreiðslur eru ekki innifaldar í launum þínum – þú átt sérstakan rétt til orlofsgreiðslna.
Mundu að þegar þú hættir í starfi áttu að fá greidd orlofslaun vegna ótekins orlofs.