Ef þú ert boðuð/boðaður í starfsviðtal þýðir það að atvinnurekandinn veltir því fyrir sér að ráða þig í starfið. Undirbúðu þig fyrir viðtalið með því að kynna þér fyrirtækið og starfið sem þú ert að sækja um. Slíkar upplýsingar má m.a. fá á heimasíðu fyrirtækja eða í auglýsingum um starfið.
Í starfsviðtali spyr atvinnurekandi þig ýmissa spurninga t.d. af hverju þú sækir um starfið og af hverju þú telur að þú sért rétta manneskjan í starfið. Starfsviðtalið gefur þér líka færi á að afla upplýsinga um starfið.
Dæmi um spurningar sem þú getur spurt í starfsviðtali:
Hvaða störfum á ég að sinna?
Hvenær hefst vinnudagur og hvenær lýkur honum?
Hver eru launin?
Eftir hvaða kauptaxta er greitt fyrir dagvinnu, yfirvinnu og helgidagavinnu.
Upplýsingar um yfirvinnu eða vaktafyrirkomulag?
Eftir hvaða kjarasamningi er farið?
Hverjir eru helstu samstarfsmenn?
Dæmi um spurningar sem atvinnurekandi spyr í starfsviðtali:
Af hverju hefur þú áhuga á þessu starfi?
Hvaða kosti hefurðu sem nýtast í starfinu?
Hvar hefur þú unnið áður og hvernig gekk það?
Það er mikilvægt að mæta á réttum tíma í starfsviðtal og vera snyrtilegur til fara. Ekki gleyma að brosa.